154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:59]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan þá erum við að ræða fjármálaáætlun, sem er svolítið úr 20.000 fetum. Við erum að ræða það hér að geta sett umtalsverðar fjárhæðir á næstu árum og á næsta ári til þess sem við köllum inngildingu, úr 20.000 fetum. Við erum að forma það núna með Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hvernig við munum svo geta útfært það betur í fjárlagafrumvarpi og inn á hvaða liði það fer. Varðandi framhaldsskólann erum við líka að leggja áherslu á inngildingu. Það á eftir að útfæra nákvæmlega hvernig það verður. Við erum í samtali við framhaldsskóla um íslenskubrautir o.s.frv, þannig að ég hef eiginlega ekki svarið á þessum tímapunkti. Það sem ég var að reyna að segja áðan er að þetta verkefni er svolítið hjá sveitarfélögunum og ég er ekki viss um að við munum hafa afl til þess að geta tekið þetta samhliða þeirri miklu skuld sem við erum almennt í hvað varðar inngildingu. Það mun skýrast þegar fjárlagafrumvarpið lítur dagsins ljós og við getum farið að vinna úr niðurstöðum fjármálaáætlunarinnar.